Hér verður sagt frá almennum ráðstöfunum sem gerðar hafa verið til að hvetja opinbera aðila til að gera gögn sín aðgengileg og samnýta þau, ásamt því að útbúa skoðunar- og niðurhalsþjónustur. Einnig er sagt frá því hvernig samstarfi er háttað.
Samskipti við þriðju aðila / A description of the relationship with third parties
Þriðju aðilar hafa aðgang að gjaldfrjálsum landupplýsingagögnum opinberra aðila og geta notað gögnin í skipulagsverkefni eða til nýsköpunar svo eitthvað sé nefnt. Einnig geta þeir skoðað gögn í landupplýsingagátt og hafa aðgang að lýsigögnum í lýsigagnagátt (e. metadata register). Öll gögn í landupplýsingagáttinni eru tengd við lýsigögn viðkomandi gagnasetts í lýsigagnagátt. Þriðju aðilar geta sótt gögn með því að nýta sér niðurhalsþjónustur mismunandi stofnana. Ekki eru allar stofnanir sem tilheyra grunngerðinni búnar að setja upp slíka þjónustu en þá er hægt að nálgast gögnin með því að hafa samband við viðkomandi stofnun sem miðlar þá gögnunum.
Yfirlit yfir vinnubrögð og aðferðir / An overview of the working practices and procedures of the coordinating body
Lög og reglugerðir skilgreina rammann í kringum verkefnið. Starfsmenn grunngerðarhóps benda opinberum aðilum reglulega á hlutverk þeirra samkvæmt lögunum og minna á að opinberir aðilar eigi að sinna ákveðnum þáttum í uppbyggingu grunngerðar fyrir stafrænar landupplýsingar sem styður við innleiðingu INSPIRE.
INSPIRE tilskipunin er grundvöllurinn fyrir innleiðingu INSPIRE á Íslandi. Lög nr. 44/2011 um grunngerð fyrir stafrænar landupplýsingar eru að mestu byggð á INSPIRE tilskipuninni og er þar hlutverk Landmælinga Íslands skilgreint. Stofnunin skal starfrækja landupplýsingagátt og sjá um rekstur, viðhald og tæknilega þróun hennar. Vefþjónustur eiga að vera aðgengilegar öllum í gegnum landupplýsingagátt (lýsigagna-, skoðunar-, niðurhals-, og vörpunarþjónusta). Einnig kemur fram að Landmælingar Íslands eigi að gera tillögu til ráðherra um aðgerðaáætlun til fimm ára í senn um uppbyggingu, rekstur og viðhald grunngerðar fyrir stafrænar landupplýsingar um Ísland.
Eins og fyrr sagði liggja fyrir drög að nýrri aðgerðaáætlun (frá 2019) hjá Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu til samþykktar. Drögin eru að hluta til unnin upp úr fyrrverandi áætlun en að hluta til með reynslu síðustu fimm ára í huga. Með nýrri aðgerðaáætlun er hugmyndin að setja fram færri markmið en um leið skýra betur þær aðgerðir sem nýttar verða til að ná settum markmiðum. Aðgerðaáætlunin tekur mið af tímaáætlun INSPIRE verkefna (INSPIRE Roadmap) og fylgir henni tímalína þar sem verkefni næstu 5 ára koma fram.
Reglugerð nr. 414/2014 um stafrænar landupplýsingar var sett til innleiðingar á INSPIRE-tilskipuninni (sbr. 8. gr. um innleiðingu) og styður hún við lög nr. 44/2011. Hlutverk LMÍ er einnig skilgreint í reglugerðinni og fer stofnunin með framkvæmd hennar fyrir hönd umhverfis- og auðlindaráðherra (4. gr.).
Reglugerð um lýsigögn fyrir stafrænar landupplýsingar nr. 390/2012 styður við uppbyggingu og viðhald grunngerðar fyrir stafrænar landupplýsingar á vegum stjórnvalda og tryggir aðgengi stjórnvalda og almennings að landupplýsingum um Ísland. Í reglugerðinni er jafnframt kveðið á um kröfur um skráningu og viðhald lýsigagna fyrir stafrænar landupplýsingar og landupplýsingaþjónustu.
Landupplýsingagátt og lýsigagnagátt gegna mikilvægu hlutverki í INSPIRE verkefninu en þar mætast allar staðtengdar landupplýsingar sem eru fyrir hendi hjá opinberum aðilum og eiga að vera hluti af INSPIRE. Landupplýsingagátt byggir á Oskari hugbúnaðinum og lýsigagnagátt á Geonetwork hugbúnaði. Tengt er á milli lýsigagnaskráninga og gagnasettana sem er hægt að skoða í landupplýsingagáttinni. Þannig má segja að grunngerð stafrænna landupplýsinga verði smátt og smátt sýnileg fyrir notendur og þá um leið auðveldara að útskýra markmiðið fyrir hagsmunaaðilum.
Samstarf og miðlun upplýsinga til hagsmunaaðila (þátttakendur í grunngerðarverkefninu) er mikilvægur þáttur í innleiðingu INSPIRE. Fundir með hagsmunaaðilum á árinu 2021 fóru fram í fjarfundarformi. Lögð er áhersla mikilvægi þess að samræma, miðla og samnýta gögn sem eru í umsjón opinberra aðila. Þetta felur í sér mikla hagræðingu fyrir alla sem geta nýtt sér landupplýsingagögn en líka fyrir opinbera aðila sem eru framleiðendur landupplýsingagagna. Samstarf kemur í veg fyrir að unnið sé að söfnun sömu gagna á mismunandi stofnunum, svo eitthvað sé nefnt.
Samráðshópar, bæði formlegir og óformlegir hafa verið mikilvægur þáttur í INSPIRE verkefninu frá upphafi. Stöðugt samstarf hefur átt sér stað í gegnum samráðshópana sem styður við hugmyndafræði og kröfur nýrrar grunngerðar fyrir landupplýsingar á Íslandi. Verkefnin tengjast því að aðstoða opinbera aðila við að bæta aðgengi að gögnum sínum í samræmi við kröfur INSPIRE tilskipunarinnar og grunngerðarverkefnisins. Samráðshóp, sem Landmælingar Íslands hafa haldið utan um frá upphafi verkefnisins, var skipt upp í tvo hópa árið 2021 í þeim tilgangi að styðja við þátttöku allra sem eru aðilar að hópunum en líka vegna fjölgunar í hópnum. Fundir voru í fjarfundarformi á árinu 2021 og fundarformið þannig að þátttakendur segja frá þróun sem hefur orðið, hverjar eru væntingar og þarfir gagnvart grunngerðarverkefninu. Miðlun upplýsinga á þennan óformlega hátt gefur þátttakendum tækifæri til að tengjast og finna flöt á miðlun gagna og jafnvel samstarfi.
Almennt má segja að mikil hugsanabreyting hafi orðið frá því að byrjað var að vinna markviss að innleiðingu hugmyndafræðinnar á bak við sameiginlega grunngerð landupplýsinga fyrir rúmum tíu árum.
Grunngerðarhluti heimasíðu Landmælinga Íslands var endurskoðaður og uppfærður á árinu 2021, því þar er markvisst miðlað efni um grunngerðina og/eða INSPIRE verkefnið.
Lögbundin samræmingarnefnd vann að fyrstu aðgerðaráætlun við uppbyggingu, rekstur og viðhald grunngerðar fyrir stafrænar upplýsingar um Ísland frá árinu 2011 – 2013 og lauk nefndin störfum sínum með útgáfu aðgerðaáætlunar sem kom út 12. desember 2013 og var til fimm ára. Aðgerðaráætlunin var staðfest af umhverfis- og auðlindaráðherra í desember 2013. Aðgerðaáætlunin rann út í lok árs 2018 og í kjölfarið voru gerð drög að nýrri aðgerðaráætlun hjá Landmælingum Íslands. Drögin voru borin undir samráðshóp en síðan send umhverfis- og auðlindaráðuneytinu til yfirlesturs og umsagnar um mitt árið 2019. Ekki er búið að samþykkja aðgerðaráætlunina en í kjölfar samskipta við ráðuneytið voru drögin uppfærð og send aftur til ráðuneytisins til samþykktar.
Norrænir vinnuhópar sem fulltrúar LMÍ taka þátt í um INSPIRE-tilskipunina til að fylgjast með og miðla upplýsingum um stöðuna á Norðurlöndunum er mikilvægur þáttur í að afla upplýsinga um tæknileg mál og aðferðir við innleiðinguna.